Þú ert hér: Home


Ferðamálasamtökin mótmæla hvalveiðum

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

hvalStjórn Ferðamálasamtaka Íslands mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Kristjáns Loftssonar  að hefja hvalveiðar enn á ný.

Þær ósjálfbæru hvalveiðar sem hér eru stundaðar ganga í berhögg við skilgreininguna á sjálfbærri nýtingu auðlinda og eru jafnframt stundaðar í algjörri andstöðu við ályktanir ferðaþjónustunnar, m.a. á aðalfundum SAF undanfarin ár.

Ferðaþjónustan og stjórnvöld hafa staðið sameiginlega að  vönduðu markaðsátaki  Ísland allt árið sem er að skila verulegri fjölgun ferðamanna, þ.á.m. metfjölda í hvalaskoðunarferðir. Tilgangur þessa verkefnis var að fjölga heilársstörfum og styrkja stoðir atvinnugreinarinnar.  Það er því í hæsta máta sérkennilegt að  sérhagmunir eins aðila gangi fyrir almannahagsmunum auk þess sem veiðarnar eru stundaðar í algjörri andstöðu við okkar helstu viðskiptalönd.

Fyrir liggur að hvalaskoðun um land allt skilar mun meiri verðmætum til þjóðarbúsins en hvalveiðar munu nokkru sinni gera. Ferðamálasamtök Íslands benda á að eina leiðin til sjálfbærar nýtingar hvalastofnanna hér við land er að sýna þá með ábyrgum hætti erlendum og innlendum ferðamönnum. þ.e. hvalirnir eru mun meira virði lifandi en dauðir.

Hvalveiðar sem stundaðar eru í óþökk og algjörri andstöðu við okkar helstu viðskiptalönd og viðskiptavini (erlendar ferðaskrifstofur og ferðaheildsala) munu ávallt skaða orðspor landsins og hafa neikvæða umfjöllun í för með sér með ófyrirsjánlegum afleiðingum.

Ferðamálasamtök Íslands skora á stjórnvöld að hlutast til um að meiri hagsmunum verði ekki fórnað fyrir sérhagsmuni Kristjáns Loftssonar.

 

Skráning á póstlista

Nafn:
Netfang: